Um okkur

UPPHAFIÐ

Bókaútgáfan Espólín forlag var stofnuð á árinu 2018 af þeim Teiti Má Sveinssyni og Önnu Dóru Antonsdóttur. Fyrir rak Anna Dóra Adan bókaútgáfu, en við stofnun Espólín forlags var starfsemi  fyrrgreinda félagsins færð undir hatt hins nýja forlags. Um er að ræða lítið fjölskyldufyrirtæki sem eigendur þess reka samhliða annarri vinnu.


Okkar saga

Hvatinn að stofnun forlagsins var fyrst og fremst sá að skapa  sterkan grundvöll fyrir útgáfu höfundarverka Önnu Dóru Antonsdóttur og eftir atvikum annarra höfunda, án þess þó að stækkun starfseminnar sé beinlínis á stefnuskránni. Með stofnun Espólíns forlags er lagður sá grundvöllur sem nauðsynlegur er til þess að sinna faglegri og öflugri útgáfustarfsemi.

Eigendur bókaforlagsins hafa sterk og djúpstæð tengsl við bæinn Frostastaði í Blönduhlíð í Skagafirði. Nafn forlagsins tengist bænum sömuleiðis, en það er kennt við sýslumanninn Jón Espólín.


Hver var Jón Espólín?

Jón fæddist á bænum Espihóli í Eyjafirði árið 1769 og kenndi sig við bæinn með því að taka upp eftirnafnið Espólín. Hann var sýslumaður í Skagafjarðarsýslu allt þar til hann lést árið 1836 og bjó á Frostastöðum síðustu ár ævinnar. Jón var mikill sagnfræðingur, en eftir hann liggur meðal annars Annállinn Íslands Árbækur, eða Árbækur Espólíns eins og þær eru yfirleitt kallaðar. Þá var hann sömuleiðis afkastamikill ættfræðingur.


“Það er sérstakt baráttumál forlagsins að reist verði stytta af Jóni Espólín á Frostastöðum, til minningar um þennan merkilega mann og þá arfleið sem hann lét Íslendingum í té.”

— Espólín Forlag